Á tímum COVID höfum við hestamenn verið hálfgerður forréttindahópur í samfélaginu. Við höfum getað stundað okkar íþrótt og áhugamál án mikilla takmarkanna og við áttum góða spretti í sumar. Við fórum í hestaferðir, tömdum unghrossin okkar og sóttum ýmis hestamannamót þó að stærri mótum (Lands- og Íslandsmót) hafi verið aflýst. Reiðhallir hestamannafélaga hafa vissulega verið lokaðar síðustu vikur en fyrir þau okkar sem vinnum allan daginn innandyra, jafnvel heiman frá okkur, þá er alltaf eftirsóknarverðast að komast út að leika í lok vinnudags. Fyrir þetta alltsaman erum við auðvitað þakklát enda deginum ljósara að hestamenn hafa notið haustsins vel þrátt fyrir almennar takmarkanir í samfélaginu.
Á haustdögum hafa orðið nokkrar breytingar á litlu hestahjörðinni okkar. Frami frá Álfhólum, sem við ræktuðum með Söru vinkonu okkar í Álfhólum og höfum átt í rúm sjö ár, er kominn til nýrra heimkynna í Noregi. Þá er Eldey frá Árbæjarhjáleigu, 1. verðlauna hryssa sem við fjölskyldan höfum átt sl. fjögur ár, einnig flogin á vit nýrra ævintýra. Í stað þeirra hefur Dökkva frá Álfhólum, sex vetra Hringsson (frá Gunnarsstöðum) undan Dimmu frá Miðfelli, bæst við flotann. Dökkvi er sammæðra þeim Dalvari og Drífanda sem eru í okkar eigu en önnur syskini hans eru m.a. gæðingarnir Díva og Dimmir frá Álfhólum. Síðustu tvo áratugi höfum við átt marga góða hesta úr gæðingahreiðrinu að Álfhólum en sú einstaka staða er komin upp að í vetur verðum við eingöngu með hesta á húsi sem ættaðir eru þaðan. Þar af eru þrír bræður (sammæðra), systkin (sammæðra) og mæðgin. Það er því nokkuð ljóst að við fjölskyldan erum afar lítið fyrir að sækja vatnið yfir lækinn enda hafa hestarnir frá Söru reynst okkur vel.
![]() Ég skellti mér á WR Suðurlandsmótið helgina 23.-25. ágúst sl. en þá voru liðin ein átta ár síðan ég keppti síðast á þessu móti á henni Myrkvu minni. Við Mói tókum að þessu sinni þátt í bæði fjórgangi og tölti og það verður að viðurkennast að aksturinn sem fylgir þátttöku á Hellumótum er alveg í það allra mesta. Forkeppni á föstudegi og laugardegi ásamt tvennum úrslitum á sunnudegi þýddi einfaldlega 600 km akstur yfir helgina. Ég ákvað með afar skömmum fyrirvara að láta vaða og skrá okkur Móa til þátttöku eftir afar létt síðsumarstrimm að loknu sumarfríi okkar beggja. Þar sem Mói er stóðhestur naut hann auðvitað ekki þeirra forréttinda að koma með okkur í hestaferðina og hans miðsumar pása var því nokkuð lengri en hinna hestana okkar. Ég ákvað jafnframt að dusta rykið af töltkeppninni (T3) eftir nokkurt hlé í þeirri grein en við Mói höfum að mestu einbeitt okkur að fjórganginum sl. tvö árin með smá viðkomu í B-flokki. Við máttum vel við una og komumst í A- úrslit í báðum greinum. Við eigum meira inni í töltinu og munum halda áfram að æfa okkur í þeirri grein á komandi keppnistímabili. Þrátt fyrir að vera nokkuð frá okkar besta formi þá vorum vaxandi allt mótið og hefðum toppað okkur á fjórða degi. Þá mætti ég í fyrsta sinn með Eldey frá Árbæjarhjáleigu II á keppnisbrautina núna í ágúst. Við tókum úr okkur hrollinn með keppni í fimmgangi á WR Suðurlandsmótinu þar sem 2 af 5 gangtegundum fóru algjörlega í vaskinn. Það var ekkert annað í stöðunni en að girða sig í brók og mæta galvaskar á næsta mót sem var A-flokkur áhugamanna á Gæðingaveislu Sörla dagana 27.-29. ágúst. Þar gekk okkur betur að púsla öllum gangtegundum saman forkeppninni og niðurstaðan í úrslitum var 2. sætið með 8,29 í einkunn. Skömm er frá því að segja að ekki voru liðin nema 20 ár ár frá minni síðustu þátttöku í A-flokki ef frá er talin ein A-flokks keppni á beinni braut á Metamóti fyrir sex árum síðan. Þá mættu þeir félagar Drífandi frá Álfhólum og Steinþór Nói að nýju í brautina og tóku annað rennsli í barnaflokknum. Þeir áunnu sér keppnisrétt í A-úrslitum eftir forkeppni og unnu sig upp í 4. sætið með 8,38 í aðaleinkunn. Flottar framfarir á milli móta og Þeir stefna á að mæta aftur til leiks á næsta tímabili, reynslunni ríkari. Það hefði reyndar verið gaman að mæta á það skemmtilega mót (Metamót) sem fram fór núna um helgina en ég var erlendis og komst því miður ekki að þessu sinni. Vonandi næst! WR Suðurlandsmót - Fjórgangur (V2) 1. flokkur 1. Sunna Sigríður Guðmundsdóttir / Nói frá Vatnsleysu 7.33 2. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum 6,97 3. Katrín Sigurðardóttir / Ólína frá Skeiðvöllum 6,87 4. Arnhildur Helgadóttir / Gná frá Kílhrauni 6,77 5. Elín M. Björnsdóttir / Melódía frá Hjarðarholti 6,53 6. Brynja Viðarsdóttir / Barónessa frá Ekru 6,40 7. Daníel Ingi Larsen / Alrún frá Langsstöðum 6,13 WR Suðurlandsmót - Tölt (T3) 1. flokkur 1. Katrín Sigurðardóttir / Ólína frá Skeiðvöllum 7,50 2. Sunna Sigríður Guðmundsdóttir / Nói frá Vatnsleysu 7.39 3. Vilborg Smáradóttir / Dreyri frá Hjaltastöðum 6,83 4.-6. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum 6,67 4.-6. Fríða Hansen / Vargur frá Leirubakka 6,67 4.-6. Klara Sveinbjörnsdóttir / Seimur frá Eystra-Fróðholti 6,67 7. Hrönn Ásmundsdóttir / Rafn frá Melabergi 6,61 8. María L. Skúladóttir / Hafrún frá Ytra-Vallholti 6,39 Gæðingaveisla Sörla - A-flokkur áhugamanna 1. Tónn frá Breiðholti í Flóa / Kristín Ingólfsdóttir 8,37 2. Eldey frá Árbæjarhjáleigu II / Saga Steinþórsdóttir 8,29 3. Sólon frá Lækjarbakka / Hafdís Arna Sigurðardóttir 8,28 4. Þór frá Minni-Völlum / Sigurður Ævarsson 8,11 5. Draupnir frá Varmadal / Stella Björg Kristinsdóttir 8,08 6. Villi frá Garðabæ / Stefnir Guðmundsson 8,05 7. List frá Hólmum / Viktor Aron Adolfsson 7,93 ![]() Eftir tæplega sex vikna sumar og hestafrí tókum við hestana okkur aftur á hús í lok júlímánaðar. Með skömmum fyrirvara ákváðum við að lengja sumafríið um nokkra daga og skella okkur með Álfhólafjölskyldunni og fylgdarliði þeirra í alvöru fimm daga hestaferð um verslunarmannahelgina með tæplega sextíu hesta rekstur. Þetta var fyrsta alvöru hestaferð barnanna okkar (9 og 12 ára) sem stóðu sig þrælvel og voru þau meira og minna í hnakknum alla ferðina. Líklega var um þriðjugur ferðalanga undir 18 ára aldri og meðalaldur hestana var heldur ekki mjög hár en allt fór vel þrátt fyrir töluverðan hasar á heimleiðinni. Það voru örugglega liðin tæplega tíu ár síðan við fórum síðast í álíka hestaferð með sama hópi og var það samdóma álít ferðahópsins að láta ekki líða svo langt í næstu ferða enda strax farið að ræða um næstu ferð á sama tíma að ári. Það var líka mikil upplifun fyrir börnin að ferðast og gista í fjallaskálum utan alfaraleiðar þar sem hvorki var netsamband eða rafmagn. Það var því leikið utandyra fram að myrkri og þá var tendrað á kertum og tekið í spil. Veðrið lék við okkur alla dagana og á kvöldin var setið úti í stafalogni við kertaljós. Það sem eftir stendur er frábær ferð með fjölskyldunni og góðum vinum þar sem ógleymanlegar minningar voru skapaðar í hinni dásamlegui fallegu náttúru. ![]() Við Mói skellum okkur á Reykjavíkurmeistaramótið sem að þessu sinni var haldið um miðjan júnímánuð. Við höfum keppt árlega á þessu móti síðastliðin fjögur ár og jafnað gengið vel. Við höfum ávallt náð í A-úrslit í fjórgangi í 1. flokki og einnig verið í B-úrslitum í tölti en okkur hefur ekki enn tekist að landa sigri á þessu gríðarsterka íþróttamóti. Reykjavíkurmeistraratitillinn í fyrra fyrir 3. sætið var þó ánægjulegur áfangi og í ár enduðum við naumlega í 2. sæti, með 0,03 mun á eftir Eddu Rún og Spyrnu. Við megum vel við una því silfrið er okkar besti árangur á þessu móti og við hlutum jafnframt okkar hæstu einkunn frá upphafi (7,27) með allar gangtegundir jafnar og góðar. WR Reykjavíkurmeistaramót - Fjórgangur 1. flokkur 1. Edda Rún Guðmundsdóttir / Spyrna frá Strandarhöfði 7,30 2. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum 7,27 3. Sunna Sigríður Guðmundsdóttir / Nói frá Vatnsleysu 6,97 4. Dagmar Öder Einarsdóttir / Villa frá Kópavogi 6,73 5. Anna Þöll Haraldsdóttir / Óson frá Bakka 6,60 6. Hrefna María Ómarsdóttir / Selja frá Gljúfurárholti 6,50 Þá bárust okkur þau gleðitíðindi frá Margrétarhofi í júlíbyrjun að Eyrún okkar frá Strandarhjáleigu (8,25) væri sónuð með staðfest fyl við Kveik frá Stangarlæk (8,76). Kveikur nýtur mikilla vinsælda og komust færri að en vildu þetta árið. Við erum því virkilega spennt fyrir afkvæminu og vonum innilega að Eyrún komi með hryssuna sem við höfum beðið þolinmóð eftir í nærri 12 ár. Annars er það helst að frétta að við erum komin með hestana okkar á hús að nýju eftir stutt sumarfrí í julí. Við ætlum við að leika okkur eitthvað inn í haustið, þjálfa söluhross og byrja að temja ungviðið okkar sem komið er á tamningaraldur. Í því ljósi höfum við jafnframt ákveðið að taka Myrkvu aftur á hús næsta vetur en meðfylgjandi myndir hér að neðan eru einmitt af yngsta afkvæmi hennar undan Dagfara frá Álfhólum (8.62) sem fæddist snemma í sumar. Ungi folinn vex og dafnar í sveitasælunni, hann fer um á góðgangi og lofar bara nokkuð góðu. ![]() Þann 1. júní sl. fæddist bleikálóttur hestur undan Myrkvu okkar og Dagfara frá Álfhólum (8,62). Ungi folinn er því albróðir folaldsins sem fæddist okkur í fyrrasumar en fórst því miður fyrir áramótin. Við vonum því að þessum unga albróðir muni farnast betur í lífinu. Við heimsóttum þau mægðin um hvítasunnuhelgina en Myrkva var ekki alveg á því að láta handsama sig með nýfæddan soninn og bíða því frekari myndartökur betri tíma. Við skoðuðm hana Myrru frá Álfhólum hins vegar í návígi en hún er þriggja vetra unghryssa í okkar eigu, sammæðra Móa frá Álfhólum. Myrra er stór og stæðileg unghryssa og það er mikil tilhlökkun að byrja að temja hana og kynnast betur með haustinu. Af ræktunarmálum okkar er það annars að frétta að Eyrún frá Strandarhjáleigu (8,25) er komin til Kveiks frá Stangarlæk (8,76) og vonum við innilega að þeirra stefnumót muni bera ávöxt áður en sumarið er á enda runnið. Næst á dagskránni er að ákveða hvort að við höldum Myrkvu undir stóðhest að nýju eða tökun hana til þjálfunar fyrir fjölskylduna í fyrirhuguðu fæðingarorlofi Eyrúnar. ![]() Eftir kærkomið mótafrí í vetur hjá okkur Móa þá var afar ánægjulegt að mæta aftur í braut á vormánuðum. Við ákváðum að dusta af okkur vetrarrykið og mættum í Firmakeppni Fáks sem ávallt er haldin á sumardaginn fyrsta. Að þessu sinni var fimakeppnin í formi gæðingakeppni á beinni braut og höfðum við Mói sigur í flokkinum Konur 1 með 8,40 í einkunn. Næsta mót var íþróttamót Harðar og þar tókum þátt í fjórgangi 1. flokk og stóðum efst eftir forkeppni með 6.90 í einkunn. Í úrslitum gekk síðan allt upp, góð frammistaða á öllum gangtegundum og allar einkunnirnar voru jafnar. Enduðum við efst eftir harða úrslitakeppni með 7,20 í aðaleinkunn, þar af tvær áttur fyrir yfirferð - sem er besti árangur okkur í fjórgangi hingað til. Það var virkilega ánægjuleg uppskera vel eftir að hafa tekið okkur hvíld frá öllum hallarmótunum og deildum í vetur. Gæðingamót Fáks fór fram blíðskaparveðri í lok maímánar og tókum við Mói þátt í B- flokki áhugamanna í fyrsta sinn á okkar keppnisferli. Áður höfðum við keppt í gæðingakeppni á metamóti Spretts fyrir þremur árum og Mói tók jafnframt þátt í úrtöku fyrir landsmótið í Fáki í fyrra. Hann komst inn á landsmótið sem varahestur og kepptum við þar saman í sérstakri forkeppni fyrir hönd Fáks. Á gæðingamóti Fáks vorum við Mói efst í okkar flokki eftir forkeppni með 8,50 í aðaleinkunn. Við hækkuðum okkur síðan upp í 8,61 í úrslitunum með jafnar og góðar tölur fyrir öll atriðin. Árangur Móa á þessu gæðingamóti er sá besti hingað til en fókusinn okkar hefur ekki verið mikill á gæðingakeppni síðustu árin enda hefur gæðingamót Fáks verið í harðri samkeppni við stærri íþróttamót sem haldin hafa verið á sama tíma. Það voru því liðin sjö ár síðan ég reið síðast hefðbundna forkeppni í gæðingakeppni (ein í braut), þá á Myrkvu frá Álfhólum (móðursystur Móa). Það verður að viðurkennast að það var alveg sérlega skemmtilegt að taka þátt á þessu gæðingamóti og rifja upp þetta frjálsa keppnisform þar sem knapinn ræður alveg uppröðun allra gangtegunda. Ekki var síður ánægjulegt að uppskera vel og hafa sigur úr bítum. Þá háði Steinþór Nói (12 ára) frumraun sína á keppnisvellinum og tók þátt barnaflokki á gæðingamótinu á Drífanda sínum frá Álfhólum. Það reyndi sannarlega á úrræðasemi unga knapans þegar fyrirfram ákveðna prógrammið klikkaði óvænt í framkvæmd. Leysti drengurinn snilldarvel úr þeim erfiðu aðstæðum og náði að bjarga sýningunni sinni með því að spila röðun gangtegunda af fingrum fram og breyta sýningunni í snarheitum. Uppskáru þeir fínar tölur fyrir bæði gangtegundir (tölt/brokk) og stökk en fetið fór því miður alveg í vaskinn að þessu sinni og hafði af þeim úrslitasæti. Þessi fyrsta keppni fer í reynslubankann góða og er sonurinn harðákveðinn í að mæta aftur í braut, reynslunni ríkari - og komast vonandi í úrslit næst. Íþróttamót Harðar - Fjórgangur 1. flokkur 1. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum, 7,20 2. Dagmar Öder Einarsdóttir / Villa frá Kópavogi, 7,03 3. Helena Ríkey Leifsdóttir / Faxi frá Hólkoti, 6,80 4. Ríkharður Flemming Jenssen / Ás frá Traðarlandi, 6,53 5. Jón Steinar Konráðssson / Flumbri frá Þingholti, 6,50 6. Arnhildur Halldórsdóttir / Þytur frá Stykkishólmi, 5,80 Gæðingamót Fáks - B flokkur áhugamanna 1. Mói frá Álfhólum / Saga Steinþórsdóttir, 8,61 2. Þjóðólfur frá Þjóðólfshaga 1 / Þorvarður Friðbjörnsson, 8,46 3. Paradís frá Austvaðsholti 1 / Margrét Halla Hansdóttir, 8,26 4. Snót frá Prestsbakka / Jón Þorvarður Ólafsson, 8,22 5. Ösp frá Hlíðartúni / Sandra Westphal-Wiltschek, 7,98 6. Taktur frá Reykjavík / Svandís Beta Kjartansdóttir, 7,92 7. Dimmir frá Strandarhöfði / Guðrún Agata Jakobsdóttir, 7,87 |