![]() Þegar við hjónin urðum þrítug fyrir áratug þá gáfum við hvort öðru helmingshlut í efnilegri 3ja vetra unghryssu sem ræktuð var af Söru vinkonu okkar í Álfhólum. Þessi unghryssa var Myrkva frá Álfhólum sem hefur reynst okkur frábærlega, innan sem utan vallar. Hún var kannski ekki fallegasta unghryssan í stóðinu þegar við völdum hana en fas og fótaburður gaf von um spennandi hestefni. Við vonum að Myrkva verði einnig farsæl til framræktunar en hún var í síðasta mánuði sónuð fylfull öðru sinni, nú við Dagfara frá Álfhólum (8.31) sem var í fimmta sæti í flokki 4v. stóðhesta á síðasta landsmóti. Fyrir á Myrkva tveggja vetra ungfolann Mjölni frá Reykjavík undan Ölni frá Akranesi (8.82) og hefur hún lofað mér að koma með hryssu næst. Í byrjun árs þegar hylla fór í næsta stórafmæli okkar hjóna vaknaði síðan sú hugmynd að endurtaka leikinn og gefa hvort öðru aðra unghryssu í tilefni af komandi fertugsafmælum. Við vorum sammála um að leita ekki langt yfir skammt því við erum yfirmáta ánægð með bæði Myrkvu og systurson hennar, Móa frá Álfhólum. Það væri því spennandi kostur að veðja á eina af yngri systrum Móa undan Móeiði (8.22) frá Álfhólum. Sú sem varð loks fyrir valinu er veturgömul unghryssa undan landsmótssigurvegaranum Konserti frá Hofi (8.72) og höfum við þegar gefið henni nafnið Myrra. Myrra er stór og myndarleg unghryssa með ljúfa lund og opin gang en hún á ekki langt að sækja það undan tveimur úrvals tölturum, Móeiði sem hlaut 9,5 fyrir tölt í kynbótadómi aðeins 5v. gömul og Konsert fékk 10 fyrir tölt aðeins 4v. gamall. Það verður því afar spennandi að fylgjast með þessari vaxa og dafna á komandi árum.
0 Comments
Leave a Reply. |