![]() Við vorum með nokkra hesta á húsi fram í október þegar tímabært var fyrir menn og hross að taka stutt haustfrí og hlaða batteríin fyrir komandi vetrarvertíð. Nokkrar spennandi hrókeringar urðu í litla stóðinu okkar í haust en í lok septembermánaðar eignuðumst við 1. verðlauna hryssuna Eyrúnu frá Strandarhjáleigu sem við stefnum með í keppni á fimmgangsvængnum. Eyrún er undan Skugga frá Strandarhjáleigu, sem hefur hlotið 8.91 fyrir hæfileika og 8.49 í aðaleinkunn, og Busku frá Strandarhjáleigu (8.11). Eyrún var sjálf sýnd í kynbótadómi í fyrrasumar og hlaut 8.25 í aðaleinkun, þá sex vetra gömul. Fyrir hæfileika fékk hún alls 8.45 og 7.96 fyrir byggingu, þar á meðal 8.5 fyrir tölt, hægt tölt, skeið, stökk, fegurð í reið og 9 fyrir vilja og geðslag. Fyrir byggingu fékk hún hæst 9 fyrir bak og lend og 8,5 fyrir samræmi. Eyrún tók jafnframt þátt í nokkrum keppnum á árinu, ber þar hæst 8.40 í A-flokki gæðinga, 6,57 í fimmgangi innanhúss og 6,21 í gæðingaskeiði. Það verður því spennandi að mæta með þessa fjölhæfu fimmgangshryssu í brautina á komandi keppnistímabili en það eru komin þrjú ár síðan við áttum síðast keppnishest í fimmgangi. Annar viðauki í okkar litla hrossahóp er hinn fimm vetra Dalvar frá Álfhólum. Dalvar er undan Orrasyninum Arði frá Brautarholti (8.49) og Dimmu frá Miðfelli (7.90) sem gerir hann að albróður töltgæðingsins Dívu frá Álfhólum (8.33). Hann er jafnframt sammæðra Drífanda okkar frá Álfhólum, sem er barnahesturinn í fjölskyldunni. Dalvar er efnilegur ungfoli sem spennandi verður að kynnast betur og byggja upp á komandi mánuðum. Fimm hross eru komin á hús í Víðidalnum en auk þessara þriggja sem nefnd hafa verið er hin fimm vetra Eldey Jarlsdóttur frá Árbæjarhjáleigu II sem við stefnum með í kynbótadóm á árinu en hún var sýnd fjögurra vetra í 7.97 í aðaleinkunn. Við bindum vonir við að hún muni jafnframt nýtast á keppnisbrautinni í framtíðinni. Loks er stóðhesturinn okkar hann Mói frá Álfhólum mættir í þjálfun. Framundan er því spennandi vetur með fjölbreyttum verkefnum.
0 Comments
Leave a Reply. |