Á tímum COVID höfum við hestamenn verið hálfgerður forréttindahópur í samfélaginu. Við höfum getað stundað okkar íþrótt og áhugamál án mikilla takmarkanna og við áttum góða spretti í sumar. Við fórum í hestaferðir, tömdum unghrossin okkar og sóttum ýmis hestamannamót þó að stærri mótum (Lands- og Íslandsmót) hafi verið aflýst. Reiðhallir hestamannafélaga hafa vissulega verið lokaðar síðustu vikur en fyrir þau okkar sem vinnum allan daginn innandyra, jafnvel heiman frá okkur, þá er alltaf eftirsóknarverðast að komast út að leika í lok vinnudags. Fyrir þetta alltsaman erum við auðvitað þakklát enda deginum ljósara að hestamenn hafa notið haustsins vel þrátt fyrir almennar takmarkanir í samfélaginu.
Á haustdögum hafa orðið nokkrar breytingar á litlu hestahjörðinni okkar. Frami frá Álfhólum, sem við ræktuðum með Söru vinkonu okkar í Álfhólum og höfum átt í rúm sjö ár, er kominn til nýrra heimkynna í Noregi. Þá er Eldey frá Árbæjarhjáleigu, 1. verðlauna hryssa sem við fjölskyldan höfum átt sl. fjögur ár, einnig flogin á vit nýrra ævintýra. Í stað þeirra hefur Dökkva frá Álfhólum, sex vetra Hringsson (frá Gunnarsstöðum) undan Dimmu frá Miðfelli, bæst við flotann. Dökkvi er sammæðra þeim Dalvari og Drífanda sem eru í okkar eigu en önnur syskini hans eru m.a. gæðingarnir Díva og Dimmir frá Álfhólum. Síðustu tvo áratugi höfum við átt marga góða hesta úr gæðingahreiðrinu að Álfhólum en sú einstaka staða er komin upp að í vetur verðum við eingöngu með hesta á húsi sem ættaðir eru þaðan. Þar af eru þrír bræður (sammæðra), systkin (sammæðra) og mæðgin. Það er því nokkuð ljóst að við fjölskyldan erum afar lítið fyrir að sækja vatnið yfir lækinn enda hafa hestarnir frá Söru reynst okkur vel. Comments are closed.
|