![]() Fyrir hálfum mánuð slepptum við hryssurnar okkar sem voru í vetrrþjálfun á grænar grundir í Mosfellsdalnum. Í stað þeirra tókum við sex unghross á hús til frum- og fortamningar. Eldri ungrossin voru járnuð og verður tamningu þeirra og gangsetningu fram haldið frá liðnu hausti. Hin unghrossin fjögur, sem eru tveggja og þriggja vetra, voru öll teymd og strokin, klippt og gefið ormalyf. Þau fá að njóta frelsisins í sumar. Við notuðum tækifærið og mynduðum ungfolana okkar tvo, þá Skörung og Þey undan Ágústínus frá Melaleiti (8.61), áður en við slepptum þeim í sumarhagann. Þetta eru þrælmyndarlegir tveggja vetra folar sem spennandi verður að eiga við að ári. Um liðna helgi fórum við síðan með unghrossin okkar fjögur í sumarhagann á Kjalarnesi og sóttum eldri hryssurnar úr haganum í Mosfellsdalnum til að járna upp og halda áfram þjálfun þeirra. Í tæplega hálfan dag vorum við með öll hrossin okkar heima við í Víðidalnum og þá blasti sannleikurinn við okkur. Litla stóðið okkar er að verða ansi tilbreytingarlaust á litinn, einlit brúnt að mestu leyti ásamt tveimur rauðum og einum jörpum. Eins og við höfum gaman af fjölbreyttum hestalitum þá er þetta staða okkar sem stendur. Vonandi náum við þó að bæta um betur á komandi árum.
Framundan eru skemmtilegir sumartúrar og almenn þjálfun til sumarloka. Skírnir (5v.) og Hekla (4v.) frá Reykjavík verða í léttu trimmi með eldri hryssunum og fá að fljóta með í þau verkefni sem framundan eru.
0 Comments
Leave a Reply. |