![]() Auðna frá Álfhólum í ágúst 2011. Með haustinu hefst nýr kafli í tamningu og þjálfun. Eldri hrossin eru flest að ljúka sínu þjálfunartímabili og fara fljótlega í verðskuldað haustfrí á meðan yngri hrossin setjast á skólabekk. Haustið er góður tími til líta yfir farinn veg og setja ný markmið fyrir komandi vetur. Það styttist í næstu tamningartörn hjá okkur því unghrossin okkar eru væntanleg á hús í lok þessa mánaðar til áframhaldandi gangsetningar og þjálfunnar fram í nóvember. Af eldri hryssunum er það að frétta að við fórum í síðustu viku í sveitaferð að Álfhólum og tókum þar út þjálfunina á Grósku frá Kjarnholtum I sem hefur verið í þjálfun hjá Söru síðusta mánuðinn. Gróska er á réttri leið og það verður spennandi að halda áfram með hana á nýju ári. Nú fer Gróska í haustfrí til áramóta en markmiðið okkar er að koma fram með Grósku í keppni á fimmgangsvængnum og renna henni síðan í gegnum kynbótadóm næsta sumar.
Myrkva frá Álfhólum fór í hvíld eftir kynbótasýninguna á Hellu í lok ágústmánaðar, eftir langt og strangt þjálfunartímabil frá áramótum. Stefnan er sett á áframhaldandi þátttöku í fjórgangskeppnum á næsta keppnistímabili en einnig stefnum við á að reyna við okkur á nýjum vetvangi, í töltkeppnum. Það verður spennandi að halda áfram að þjálfa Myrkvu á komandi vetri og við stefnum auðvitað að því gera enn betur. Myrkva fór hæst í einkunina 6,87 á Suðurlandsmóti í ágúst en nánar verður fjallað um það mót síðar. Sú breyting hefur orðið á "stóðinu" okkar að Auðna frá Álfhólum hefur eignast nýja eigendur sem stefna með hana í spennandi nám með haustinu. Auðnu verður sárt saknað úr hesthúsinu okkar en hún er virkilega flott tölthryssa sem er sífellt að bæta við sig í getu og styrk. Við óskum nýjum eigendum innilega til hamingju með góða hryssu - það verður gaman að fylgjast með henni í brautinni í framtíðinni!
0 Comments
Leave a Reply. |