![]() Um helgina mættum við Myrkva frá Álfhólum á Bleika töltmótið í Víðidal til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Þetta er okkar fyrsta töltmót og líklega eru liðin ein fimmtán ár síðan ég reið síðast töltprógramm ein í braut og ekki minna en tíu ár síðan ég tók síðasti þátt í töltikeppni. Þetta er ekki okkar sterkasta grein, Myrkva er mun sterkari á fjórgangsvængnum en við höfum gott af æfingunni og undirbúnings þjálfuninni fyrir töltmót. Það er líka um að gera að æfa sig í þessari grein þar sem ekki eru önnur mót en töltmót í boði hjá stærsta hestamannafélagi landsins fyrr en blásið verður til Reykjavíkurmeistaramóts í maíbyrjun. ![]() Við Myrkva skráðum okkur til leiks í opna flokkinum og hlutum einkunnina 6,20 í forkeppni, sem hefði skilað okkur í þriðja sætið inn í A-úrslit í styrkleikaflokknum fyrir neðan. Við fengum tækifæri til að æfa okkur í B-úrslitum í opna flokknum, fengum 6,33 í einkunn sem verður að teljast ásættanlegt á okkar fyrsta töltmóti í byrjun vetrar. Hér má sjá fleiri myndir frá Bleika töltmótinu. Ég er sátt við formið á okkur miðað við árstíma en aðeins er liðinn rúmur mánuður síðan Myrkva kom á hús. Við þurfum hins vegar að fínstilla eitt og annað fyrir næsta mót og vonandi verðum við komnar í gott form fyrir aðalmótin í vor en þá ætlum við að reyna okkur í enn annari greininni, B-flokki gæðinga.
0 Comments
Leave a Reply. |