MALBIKSHESTAR
  • FRÉTTIR
  • UM OKKUR
  • RÆKTUN
    • EYRÚN FRÁ STRANDARHJÁLEIGU
    • MYRKVA FRÁ ÁLFHÓLUM
  • Í ÞJÁLFUN
    • DRÍFANDI ÁLFHÓLUM
    • DÖKKVI FRÁ ÁLFHÓLUM
    • MJÖLNIR FRÁ REYKJAVÍK
    • MÓI FRÁ ÁLFHÓLUM
    • MYRRA FRÁ ÁLFHÓLUM
  • UNGHROSS
    • EYVÖR FRÁ REYKJAVÍK 2021
    • EINSTÖK FRÁ REYKJAVÍK 2020
    • SÓLMYRKVI REYKJAVÍK 2019
    • GÍGUR SAUÐÁRKRÓKI 2019
  • ELDRA EFNI
    • STÓÐHESTAVAL
    • FRÁSÖGN
    • REIÐMENNSKA
    • RÆKTUNIN
    • SANDKORN
    • STÓÐHESTAR
    • SÝNINGAR
    • VIÐTAL

Litla hrossaræktin

6/12/2019

0 Comments

 
Picture
Þann 1. júní sl. fæddist bleikálóttur hestur undan Myrkvu okkar og Dagfara frá Álfhólum (8,62). Ungi folinn er því albróðir folaldsins sem fæddist okkur í fyrrasumar en fórst því miður fyrir áramótin. Við vonum því að þessum unga albróðir muni farnast betur í lífinu. Við heimsóttum þau mægðin um hvítasunnuhelgina en Myrkva var ekki alveg á því að láta handsama sig með nýfæddan soninn og bíða því frekari myndartökur betri tíma. Við skoðuðm hana Myrru frá Álfhólum hins vegar í návígi en hún er þriggja vetra unghryssa í okkar eigu, sammæðra Móa frá Álfhólum. Myrra er stór og stæðileg unghryssa og það er mikil tilhlökkun að byrja að temja hana og  kynnast betur með haustinu.   

Af ræktunarmálum okkar er það annars að frétta að Eyrún frá Strandarhjáleigu (8,25) er komin til Kveiks frá Stangarlæk (8,76) og vonum við innilega að þeirra stefnumót muni bera ávöxt áður en sumarið er á enda runnið. Næst á dagskránni er að ákveða hvort að við höldum Myrkvu undir stóðhest að nýju eða tökun hana til þjálfunar fyrir fjölskylduna í fyrirhuguðu fæðingarorlofi Eyrúnar.  

0 Comments

Vormót 2019

5/31/2019

0 Comments

 
Picture
Eftir kærkomið mótafrí í vetur hjá okkur Móa þá var afar ánægjulegt að mæta aftur í braut á vormánuðum. Við ákváðum að dusta af okkur vetrarrykið og mættum í Firmakeppni Fáks sem ávallt er haldin á sumardaginn fyrsta. Að þessu sinni var fimakeppnin í formi gæðingakeppni á beinni braut og höfðum við Mói sigur í flokkinum Konur 1 með 8,40 í einkunn.     

Næsta mót var íþróttamót Harðar og þar tókum þátt í fjórgangi 1. flokk og stóðum efst eftir forkeppni með 6.90 í einkunn. Í úrslitum gekk síðan allt upp, góð frammistaða á öllum gangtegundum og allar einkunnirnar voru jafnar. Enduðum við efst eftir harða úrslitakeppni með 7,20 í aðaleinkunn, þar af tvær áttur fyrir yfirferð - sem er besti árangur okkur í fjórgangi hingað til. Það var virkilega ánægjuleg uppskera vel eftir að hafa tekið okkur hvíld frá öllum hallarmótunum og deildum í vetur.  
​
Gæðingamót Fáks fór fram blíðskaparveðri í lok maímánar og tókum við Mói þátt í B- flokki áhugamanna í fyrsta sinn á okkar keppnisferli. Áður höfðum við keppt í gæðingakeppni á metamóti Spretts fyrir þremur árum og Mói tók jafnframt þátt í úrtöku fyrir landsmótið í Fáki í fyrra. Hann komst inn á landsmótið sem varahestur og kepptum við þar saman í sérstakri forkeppni fyrir hönd Fáks.

Á gæðingamóti Fáks vorum við Mói efst í okkar flokki eftir forkeppni með 8,50 í aðaleinkunn. Við hækkuðum okkur síðan upp í 8,61 í úrslitunum með jafnar og góðar tölur fyrir öll atriðin. Árangur Móa á þessu gæðingamóti er sá besti hingað til en fókusinn okkar hefur ekki verið mikill á gæðingakeppni síðustu árin enda hefur gæðingamót Fáks verið í harðri samkeppni við stærri íþróttamót sem haldin hafa verið á sama tíma. Það voru því liðin sjö ár síðan ég reið síðast hefðbundna forkeppni í gæðingakeppni (ein í braut), þá á Myrkvu frá Álfhólum (móðursystur Móa). Það verður að viðurkennast að það var alveg sérlega skemmtilegt að taka þátt á þessu gæðingamóti og rifja upp þetta frjálsa keppnisform þar sem knapinn ræður alveg uppröðun allra gangtegunda. Ekki var síður ánægjulegt að uppskera vel og hafa sigur úr bítum.     

Þá háði Steinþór Nói (12 ára) frumraun sína á keppnisvellinum og tók þátt barnaflokki á gæðingamótinu á Drífanda sínum frá Álfhólum. Það reyndi sannarlega á úrræðasemi unga knapans þegar fyrirfram ákveðna prógrammið klikkaði óvænt í framkvæmd. Leysti drengurinn snilldarvel úr þeim erfiðu aðstæðum og náði að bjarga sýningunni sinni með því að spila röðun gangtegunda af fingrum fram og breyta sýningunni í snarheitum. Uppskáru þeir fínar tölur fyrir bæði gangtegundir (tölt/brokk) og stökk en fetið fór því miður alveg í vaskinn að þessu sinni og hafði af þeim úrslitasæti. Þessi fyrsta keppni fer í reynslubankann góða og er sonurinn harðákveðinn í að mæta aftur í braut, reynslunni ríkari - og komast vonandi í úrslit næst.      

Íþróttamót Harðar - Fjórgangur 1. flokkur

1. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum, 7,20
2. Dagmar Öder Einarsdóttir / Villa frá Kópavogi, 7,03
3. Helena Ríkey Leifsdóttir / Faxi frá Hólkoti, 6,80
4. Ríkharður Flemming Jenssen / Ás frá Traðarlandi, 6,53
5. Jón Steinar Konráðssson / Flumbri frá Þingholti, 6,50
6. Arnhildur Halldórsdóttir / Þytur frá Stykkishólmi, 5,80 


Gæðingamót Fáks - B flokkur áhugamanna
                               
                                
1.  Mói frá Álfhólum / Saga Steinþórsdóttir, 8,61
2.  Þjóðólfur frá Þjóðólfshaga 1 / Þorvarður Friðbjörnsson, 8,46
3.  Paradís frá Austvaðsholti 1 / Margrét Halla Hansdóttir, 8,26
4.  Snót frá Prestsbakka / Jón Þorvarður Ólafsson, 8,22
5.  Ösp frá Hlíðartúni / Sandra Westphal-Wiltschek, 7,98
6.  Taktur frá Reykjavík / Svandís Beta Kjartansdóttir, 7,92
7.  Dimmir frá Strandarhöfði / Guðrún Agata Jakobsdóttir, 7,87

0 Comments

Dagfarasonurinn er allur

12/27/2018

 
​Sá leiði atburður átti sér stað á aðventunni að fyrsta folaldið sem fæðist okkur í heil þrjú ár fannst bráðkvaddur í haganum. Ungi folinn var annað folaldið undan Myrkvu okkur en hann var jafnframt undan gæðingnum Dagfara frá Álfhólum (8.62) sem er í eigu Söru vinkonu okkar. Fyrir eigum við eitt afkvæmi undan Myrkvu sem er á fjórða vetri, Mjölni frá Reykjavík.  ​

Þá vorum við með Eyrúnu frá Strandarhjáleigu (8.25) í tvo mánuði í sumar í girðingu hjá Sjóði frá Kirkjubæ (8.70) en því miður fyljaðist hún ekki eftir dvölina. Það fer því afar lítið fyrir ræktunarafrekum okkar þessa dagana þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir á því sviði og lítið hætta á offjölgun í litla stóðinu okkar á næstunni. Við horfum þó björtum augum fram á veginn og vonum að næsta ár verði okkur gjöfulla í þessum efnum.  

Landsmót hestamanna í Reykjavík

10/29/2018

 
Picture
Forkeppni í B-flokki, 8.49 í einkunn.
Landsmótið í Reykjavík var haldið á okkar heimasvæði í Víðidalnum í sumar. Við vorum tvo hesta sem tóku þátt í þremur atriðum á mótinu. Við Mói kepptum fyrir hestamannafélagið Fák í B-flokki gæðinga og fengum 8.49 í einkunn, sem var aðeins 0,06 stigum frá milliriðlum og enduðum við í 39. sæti af 109 keppendum. Þá tókum við Mói jafnframt þátt í ræktunarbússsýningu Álfhóla á föstudagskvöldvökunni með Söru vinkonu og fjölskyldu þar sem átta 1. verðlauna stóðhestar voru sýndir fyrir hönd búsins. Frábær skemmtun og mikill heiður fyrir okkur Móa að vera valin í hópinn, ekki síst þar sem hann var eini stóðhesturinn sem ekki var í eigu fjölskyldunnar sjálfrar.  

Loks sýndi Viðar Ingólfsson hana Eldey frá Árbæjarhjáleigu í afkvæmahópnum með Jarli föður sínum sem hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi á mótinu. Virkilega skemmtilegt mót fyrir okkur fjölskylduna og sérlega ánægjulegt að fá tækifæri til að keppa og sýna á heimavelli.  
Picture
Ræktunarbússýning frá Álfhólum.

Wow áhugamót Spretts

9/21/2018

 
PictureA-úrslit í fjórgangi á WOWair móti Spretts 2018.
Helgina 16.-17. júní sl. tókum við Mói þátt í Wowair áhugamóti Spretts í annað sinn og vörðum sigur okkar í fjórgangi frá því í fyrra. Þetta er virkilega skemmtilegt mót og ekki skemmdi heldur fyrir að fá veglegan ferðavinning í sigurlaun. Það er algjörlega til fyrirmyndar hve vel Sprettarar sinna áhugamönnum í hestamennsku, bæði með þessu sumarmóti og ekki síður með áhugamannadeildinni sem fram fer yfir vetrartímann. 

Ég hef sjálf tekið þátt í áhugamannadeild Spretts sl. þrjú ár með liði Mustad sem hefur verið mjög skemmtileg áskorun. Liðið hefur verið með í deildinni frá upphafi og verið í topp baráttunni en í vor urðu ákveðin tímamót og tækifæri til breytinga. Eftir vandlega íhugsun ákvað ég í framhaldinu að taka eitt ár í pásu frá deildinni með það í huga að koma tvíefld til leiks að ári liðnu. Það er bæði tímafrekt og krefjandi að taka þátt í svona metnaðarfullri keppnisdeild sem spannar að minnsta kosti þriggja mánaða tímabil. Taka þarf inn snemma og koma hestunum snemma í kennisform.  

Við erum sem stendur með fimm hesta á húsi þessa dagana og verðum að venju með hesta á húsi frameftir haustinu, frameftir októbermánaðuði. Væntanlega tökum við ekki aftur á hús  fyrr en eftir jólahátíðir þennan veturinn, sem verður afar þægileg tilbreyting. 
 
A-úrslit - fjórgangur V2 
1. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum, 6,70
2. Jessica Elisabeth Westlund / Frjór frá Flekkudal, 6,50
3. Brynja Viðarsdóttir / Barónessa frá Ekru, 6,43
4.-6. Hrafnhildur Jónsdóttir / Kraftur frá Keldudal, 6,23
4.-6. Ríkharður Flemming Jensen / Tannálfur frá Traðarlandi, 6,23
4.-6. Kristín Ingólfsdóttir / Garpur frá Miðhúsum, 6,23

Eldey frá Árbæjarhjáleigu II

8/6/2018

 
Picture
Eldey á kynbótasýningu í Spretti vor 2018.
Eldey 6v. var sýnd aftur í kynbótadómi í vor og hlaut 1. verðlaun bæði fyrir hæfileika og í aðaleinkunn. Hún var sýnd í prýðilegan dóm fjögura vetra gömul (7,97 í aðaleinkunn) og vantaði því aðeins herslumuninn til að ná einkunn til 1. verðlaun. Það var Viðar Ingólfsson sem sýndi Eldey að þessu sinni en fyrir hæfileika hækkaði hún um hálfan fyrir brokk, skeið, fet og hægt tölt en lækkaði fyrir stökk, alls fékk hún 8,12 fyrir hæfileika en stóð í stað fyrir byggingu (7,94 í einkunn), sjá nánar hér. Eldey tók jafnframt þátt í afkvæmahópi Jarls frá Árbæjarhjáleigu II sem sýndur var til 1. verðlauna fyrir afkvæmi á landsmótinu í Víðidal.    

Myrra árinu eldri

6/24/2018

 
Picture
Veturgömul sumarið 2017.
Picture
Tveggja vetra vorið 2018.
Við kíktum í sveitina í byrjun mánaðar til þess að taka út vetrarvöxtinn á hinni tveggja vetra Myrru frá Álfhólum. Myrra er sammæðra Móanum okkar, undan klárhryssunni Móeiði (8,22) frá Álfhólum en faðir hennar er gæðingurinn Konsert frá Hofi (8,72). Hún hefur tekið út mjög góðan þroska á því rúma ári sem liðið er frá því að við hjónin völdum okkur hryssuna í fertugsafmælisgjöf, hún er bæði hálslöng og háfætt og gefur fullorðnu hrossunum lítið eftir í stærð. Það verður virkilega spennandi að byrja að temja þessa efnilegu unghryssu eftir rúmlega ár.   

Gæðingamót Fáks

6/16/2018

 
PictureMói á hægu tölt, mynd: AG, Sprettur.
Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að spreyta sig í gæðingakeppni og það var ekki endilega planið fyrirfram hjá okkur Móa að taka þátt í úrtökumóti Fáks fyrir landsmótið.

Aðdragandinn og undirbúningurinn fyrir þátttökunni var ekki langur en það gekk furðuvel að skipta um gír úr íþróttakeppni yfir í gæðingakeppni. Við ákvaðum þó að breyta aðeins til og fengum Viðar Ingólfsson til liðs við okkur við sýninguna í forkeppni sem leysti það verkefni með strakri prýði. 

Niðurstaðan var 14. sæti eftir forkeppni með 8,42 í einkunn og fyrsti varahestur inná landsmótið. Við fengum síðan tækifæri til að spreyta okkur í úrslitum gæðingamótsins eftir töluverð afföll í röðum efstu hesta og var það mikið fjör og virkilega skemmtileg reynsla fyrir okkur.

​Þau skemmtilegu tíðindi bárust okkur síðan í dag að vegna afskráningar þá erum Mói kominn með þáttökurétt inná landsmótið. Gefst okkur þá báðum tækifæri til að keppa í fyrsta sinn á landsmóti en við höfum þó áður mætt á landsmót því á síðasta móti tókum við þátt í afkvæmahópi Kjerúlfs frá Kollaleiru.     
​
Úrslit í B flokki gæðinga
1. Póstur frá Litla-Dal / Gústaf Ásgeir Hinriksson 8,89
2. Þrumufleygur frá Álfhólum / Viðar Ingólfsson 8,80
3. Valur frá Árbakka / Hulda Gústafsdóttir 8,72
4. Sproti frá Enni / Þórdís Erla Gunnarsdóttir 8,71
5. Æska frá Akureyri / John Sigurjónsson 8,70
6. Taktur frá Vakurstöðum / Matthías Leó Matthíasson 8,65
7. Sæmd frá Vestra-Fíflholti / Sylvía Sigurbjörnsdóttir 8,61
8. Mói frá Álfhólum / Saga Steinþórsdóttir 8,42

Dagfarasonur frá Reykjavík

6/3/2018

 
PictureSólmyrkvi í júní 2018.
Við fengum fréttir af því í vikunni að fætt væri móálótt hestfolald undan Myrkvu okkar og Dagfara frá Álfhólum (8.62). Það eru þá komin 10 ár frá síðasta merfolaldi sem fæddist sumarið 2008 en sex hestfolald hafa fæðst okkur í röð síðan þá. Kynjahlutföllin eru á þá leið að af þeim 14 folöldum sem við höfum ræktað á sl. 20 árum þá eru ellefu hestfolöldum á móti þremur merfolöldum.

Skal engan undra að við freistumst til að kaupum af og til efnilegar hryssur til að rétta kynjahlutfallið við í litla hesthúsinu okkar. Folinn ungi virðist nokkuð álitlegur við fyrstu sýn og fer hann um á góðganginum sem er alltaf kostur. Vonandi hefur hann erft fleiri eiginleika en litinn einan frá Dagfara sem er frábær gæðingur og við hrifumst mjög af við fyrstu sýn þegar sá var einungis veturgamlan. 

Reykjavíkurmeistaramót

5/30/2018

 
Picture
Dagana 9.-13. maí fór Reykjavíkurmeistaramót Fáks fram í Víðidalnum þar sem við Mói tókum þátt í fjórgangi og tölti í 1. flokki. Við vorum efst í fjórgangi eftir forkeppnina, annað árið í röð en þurftum því miður að hætta forkeppni í tölti vegna mistaka.

Í úrslitunum lenntum við í smá brasi sem urðu okkur á endanum dýrkeypt og við enduðum í 3. sæti úrslitanna eins og í fyrra. Í sárabót náðum við þó að landa hinum eftirsótta Reykjavíkurmeistaratitli sem veittur er efsta félagsmanni Fáks hverju sinni. Liðin voru heil 24 ár síðan þeim titli var síðast hampað en það var í tölt unglinga árið 1994.    


Meðfylgjandi má sjá heildarniðurstöður úrslitanna:
​

A-úrslit - 1. flokkur fjórgangur V2 

1. Stella Sólveig Pálmarsdóttir / Pétur Gautur frá Strandarhöfði 6,83 
2. Róbert Bergmann / Brynjar frá Bakkakoti 6,73 
3. Saga Steinþórsdóttir / Mói frá Álfhólum 6,70 
4. Telma Tómasson / Baron frá Bala 6,63 
5. Hrefna María Ómarsdóttir / Selja frá Gljúfurárholti 6,17

Picture
<<Previous
Forward>>
    Picture
    MALBIKSHESTAR  REYKJAVÍK
    Tel: (+354) 691 4694 ICELAND


Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • FRÉTTIR
  • UM OKKUR
  • RÆKTUN
    • EYRÚN FRÁ STRANDARHJÁLEIGU
    • MYRKVA FRÁ ÁLFHÓLUM
  • Í ÞJÁLFUN
    • DRÍFANDI ÁLFHÓLUM
    • DÖKKVI FRÁ ÁLFHÓLUM
    • MJÖLNIR FRÁ REYKJAVÍK
    • MÓI FRÁ ÁLFHÓLUM
    • MYRRA FRÁ ÁLFHÓLUM
  • UNGHROSS
    • EYVÖR FRÁ REYKJAVÍK 2021
    • EINSTÖK FRÁ REYKJAVÍK 2020
    • SÓLMYRKVI REYKJAVÍK 2019
    • GÍGUR SAUÐÁRKRÓKI 2019
  • ELDRA EFNI
    • STÓÐHESTAVAL
    • FRÁSÖGN
    • REIÐMENNSKA
    • RÆKTUNIN
    • SANDKORN
    • STÓÐHESTAR
    • SÝNINGAR
    • VIÐTAL