![]() Það voru ekki liðin nema 16 ár síðan ég fór síðast með hryssu í kynbótadóm og þá fór ég með hryssa sem ég keypti 3ja vetra fyrir fermingapeningana mína og tamdi sjálf. Þrátt fyrir að vera töluvert ryðguð í fræðunum ákvað ég samt með einungis tveggja vikna fyrirvara að slá til og skrá Myrkvu aftur í dóm núna á síðsumarssýningu á Hellu. Hugmyndin var að gera atlögu að nokkrum tölum í hæfileikadómi sem ekki heppnuðust að fullu vegna hestapestarinnar síðastliðið sumar. Myrkva er búin að vera vaxandi í allt sumar og það var því virkilega freistandi að renna henni aftur í dóm með von um betri tölur. Við Myrkva náðum ágætri forsýningu þrátt fyrir að vera aðeins óöruggar í brautinni. Hún hækkaði einkunn sína fyrir brokk úr 7.5 í 8.5 og fyrir einkunn fyrir hægt stökk úr 7 í 8.5 Einkunnin 8,5 fyrir tölt og fet stóðu í stað en því miður lækkaði Myrkva fyrir vilja og geðslag úr 8.5 í 8 og skrifast það líklega mest á reynsluleysi sýnandans. Fyrir byggingu lækkaði Myrkvu um hálfan fyrir bak og lend en hækkaði um hálfan fyrir hófa. Lítilleg breyting á byggingaeinkunn en hækkaði þó úr 7.73 í 7.76.
Betur má ef duga skal hugsaði sýnandinn að lokinni forsýningu og því var brugðið á það ráð að fá ræktandann og kynbótasýningarsnillinginn Söru Ástþórsdóttir til að reyna við stóru tölurnar á yfirlitinu. Sara gerið sér lítið fyrir og hækkaði bæði einkunnina fyrir fegurð í reið úr 8 í 8.5 og einkunnina fyrir hægt tölt úr 8 í 8.5. Fleiri tölur hefðu líklega getað hækkað að auki en það kom í ljós á yfirliti að algjörlega hafði gleymst að þjálfa greiða stökkið. Þegar í brautina var komið og gefið var í á fulla ferð þá vildi svo illa til að Myrkva fipaðist og kýrstökk út brautina. Þar með fauk möguleikinn á hækkun fyrir bæði stökk og vilja/geðslag út um gluggann í bili. Engu að síður má vel við una, það er frábær árangur að ná 8,5 nánast á línu ásamt góðum dómsorðum. Níurnar verða kannski sóttar síðar því þær eru skammt undan og ýmis sóknarfæri á meðan hryssan heldur áfram að bæta vsig með degi hverjum. Endanleg niðurstaða eftir yfirlitið er því 7.80 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn er Myrkva komin með 7.79. Sjá nánari sundurliðun einkunna og dómsorð fyrir hæfileikaþáttinn hér fyrir neðan:
0 Comments
Leave a Reply. |