Vetrarþjálfunin er hafin hjá okkur og á meðfylgjandi myndir er Mói frá Álfhólum, 4 vetra stóðhestur en þessi ungi foli býr yfir óvenju góðu jafnvægi og mýkt á tölti, efnilegur keppnishestur.
Það er þó söknuður að því að hafa Myrkvu ekki í þjálfun þessa dagana en hún er vonandi ennþá fylfull út í haga. Ég hefði kosið að hafa hana mér við hlið þennan veturinn til að taka þátt í nýrri meistaradeild áhugamanna. Ég hef beðið eftir framtaki af þessu tagi í mörg ár og hér er loksins er kominn spennandi vettvangur fyrir okkur áhugamennina til að reyna okkur framan af vetri í hinum ýmsu keppnisgreinum. Líklega hefði ég beðið aðeins lengur með að halda henni undir stóðhest ef ég hefði vitað af deildinni en við Mói munum að minnsta kosti mæta fersk til leiks þegar kallið kemur. Það getur líka vel verið að Myrkva verði tekin aftur í þjálfun, aldrei að vita. Þangað til höldum við áfram að þjálfa folana og vonandi bæta aðeins við dótakassann sem er að verða ansi tómlegur, hestaeignin er dottin niður í fjóran og hálfan hest, sem er sögulegt lágmark hér á bæ. Við erum þegar byrjuð á því verkefni og leitin er hafin að nýjum gæðingi til að taka við hlutverki Glettu. Það er krefjandi verkefni að finna arftaka hennar og allar ábendingar um góða barnahesta eru vel þegnar.
0 Comments
Leave a Reply. |